Fór í MBA nám eftir 16 ár í hönnun - Ólafur Unnar Kristjánsson

Ólafur Unnar Kristjánsson

Það hefur færst í vöxt að undanförnu að fólk með allskyns menntun og reynslu í farteskinu fari í nám eftir nokkurra ára hlé enda hefur námsframboð aukist gríðarlega á undanförnum árum. Þannig reynir fólk að bæta stöðu sína á vinnumarkaðnum, auk þess sem sumir láta gamlan draum rætast og stofna eigið fyrirtæki.

Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík bjóða upp á MBA nám sem hægt er að stunda samhliða vinnu. Hönnunarvettvangur ákvað að taka hús á Ólafi Unnari Kristjánssyni (45) sem rekur ásamt 3 öðrum auglýsingastofuna Dynamo Reykjavík við Bergstaðarstræti í Reykjavík. Ólafur lauk MBA námi við HÍ fyrir rúmlega ári síðan. Við lögðum fyrir Ólaf nokkrar spurningar sem hann féllst á að svara. Hann leyfði okkur síðan með herkjum að taka af sér mynd, en eins og sjá má er Ólafur að æfa stíft fyrir „Mottuna 2007." Mikil hönnun hér á ferðinni.

Hægt er að kynna sér MBA námið á www.mba.is (Háskóli Íslands) og á www.ru.is (Háskólinn í Reykjavík).


Hvað var það sem varð til þess að þú ákvaðst að fara í MBA nám
eftir að hafa starfað sem grafískur hönnuður í 16 ár?

 
Fyrir því er svo sem engin ein ástæða. Þetta er áhugi sem er meðal annars tilkominn vegna þess að starf mitt á auglýsingastofum í gegnum tíðina hefur alltaf snúist um skilning á markaðsmálum viðskiptavinanna og þeirra þörfum.

Margir viðskiptavinir auglýsingastofa reka mjög faglegt markaðsstarf og krafa þeirra hlýtur að vera sú að samstarfs- og þjónustuaðilar þeirra í markaðsmálum standi þeim jafnfætis og helst framar í menntun, fagmennsku og þekkingu.

Því reyndari sem hönnuður verða því meiri þátt taka þeir í undirbúningsvinnunni og hugmyndafræðinni á bak við verkin. Ég var viss um námið myndi nýtast vel ofaná það sem ég var þegar að fást við og myndi styrkja mig þar sem ég var veikari fyrir.

Annar þáttur sem skipti máli var skortur á rekstrarþekkingu. Ég hafði verið með eigin rekstur og rekið auðglýsingastofu í mörg ár án þess að kunna beinlínis skil á rekstri. Svo þegar ég uppgötvaði að hægt væri að taka þetta nám með vinnu (MBA) þá bara skellti ég mér og ég mæli hiklaust með MBA námi í Háskóla Íslands.

MBA námið er, líkt og hönnun, í eðli sínu alþjóðlegt, þekkingin nýtist hvar sem er í heiminum og ég vildi einnig auka líkurnar á þeim möguleika að geta búið og unnið erlendis seinna meir. Ekki myndi skaða að læra eins og eitt tungumál í leiðinni.

Hvað er það að vera GÓÐUR hönnuður?

Góður hönnuður þarf að vera góður í samskiptum, hann vinnur með viðskiptavinum frá því snemma í verkferlinu og góður hönnuður kemur stöðugt á óvart með því að taka verk lengra, nálgast það jafnvel öðruvísi en viðskiptavinurinn átti von á.


Finnst þér þú vera "betri" hönnuður eftir að náminu lauk?

Hef svo sem ekki orðið var við miklar breytingar á mér sem hönnuði aðrar en þær að ég á auðveldara með samskipti við viðskiptavininn og er betri í að lesa væntingar þeirra og þarf því kannski í einhverjum tilfellum færri „tilhlaup" að verkefnunum auk þess sem undirbúningur er oft mikið markvissari.

Hvað finnst þér betur mega fara í sambandi við menntun íslenskra hönnuða?

Hef lítið fylgst með LHÍ síðan ég útskrifaðist. Fer þó alltaf á útskriftarsýningarnar og finnst margt gott sem þar sést. LHÍ virðist ekki leggja mikla áherslu á „praktíska" hluti í náminu, og á sínum tíma þegar ég útskrifaðist, var mér sagt að það tæki hönnuði um tvö ár eftir skóla að læra að verða góðir hönnuðir, ég held að það eigi enn við og kannski er það líka bara betra að vera ekki að beisla nemendur strax.

Kröfur um góða menntun eru stöðugt að aukast í öðrum geirum. T.d. er Mastersgráða í viðskiptafræði orðin „normið" en ég verð ekki mikið var við að hönnuðir fari í Masters-nám að lokinni BA gráðunni. Að lokum er nauðsynlegt að minnast á að ég þekki all nokkra grafíska hönnuði sem ekki hafa farið í neitt hönnunarnám en eru engu að síður mjög góðir. Þannig virðist oft spurningin um árangur fremur snúast um þennan margfræga brennandi áhuga. Menn komast ansi langt á honum.

Einhver góð ráð handa hönnuðum sem er að spá í að bæta við sig menntun?

Þeir sem vilja starfa við hönnun og hafa tök á að fara í BA eða Masters nám erlendis ættu að sjálfsögðu að gera það. Fátt er jafn gefandi og að læra og lifa í öðrum „kúltur", þetta á ekki síður við um þá sem hafa starfað í faginu í nokkur ár. Það kemur faginu í heild til góða, flóran verður fjölbreyttari, ef stærri hluti menntar sig erlendis.

Margir teiknarar eru mikið í samskiptum við viðskiptavini og sinna stjórnunarstörfum ásamt því að teikna. Þessum hópi gagnast MBA nám mjög vel. MBA nám er hægt að taka með vinnu og ég get mælt með því, þó álagið sé vissulega mjög mikið. Þetta eykur skilning hönnuða á þörfum viðskiptavinanna til muna, sem og rekstri hönnunar- eða auglýsingastofa.