Hvernig er vörumerkið Ísland®?
Maður sér það auðvitað best þegar maður er staddur erlendis, víða
mætir maður tómlæti, blankó, nafnið þýðir ekkert en annarsstaðar mætir
maður nánast fordómum, þá á ég jákvæða fordóma, nánast ofurjákvæða.
Þjóðverji faðmar mann og maður veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið.
Álfar og náttúra stendur í öllum blöðum og maður veit ekki alveg hvaðan
þetta allt er komið.
Ímynd Íslands er sameign þjóðarinnar og hvert sem við förum fylgir
okkur gildið sem vörumerkið Ísland hefur í huga heimsins. Ímynd eru
beinar tekjur í hrein verðmæti fyrir flest fyrirtæki, jafnvel einu
verðmætin sem fyrirtækið á, en eg veit ekki hvort nokkur hafi reynt að
mæla eða meta ímynd Íslands og hvort hægt væri að auka lífsgæði okkar
og verðmæti vöru og þjónustu frá Íslandi með markvissu ímyndarstarfi.
Ímynd er reyndar ekki smíðuð af ferðamálaráði eða ríkisstjórninni og
það er ekki hægt að breyta henni á einni nóttu, til góðs eða ills með
hundrað milljón króna herferð. Ímynd er byggð á ímyndun en líka
grjótharðri reynslu og upplýsingum og þekkingu.
Rithöfundurinn Margaret Atwood kom til Íslands í fyrra og frétti af
stuðningi Íslands við Íraksstríðið og virkjunaráformum og sagði
eitthvað á þá leið að henni þætti þessi mál ,,óíslensk". Það þýðir
einfaldlega að Ísland hafði ákveðið gildi og merkingu í huga hennar var
augljóst að Ísland stóð fyrir andstæðuna við stríð og náttúruspjöll. Ég
heyrði í blaðamanni frá New York Times en hún sagði að sér fyndist
Ísland ekki fyrsta heims ríki heldur einskonar Atlantis, útópía, þannig
sæi hún fyrir sér Ísland en ástæðan fyrir því að hún hringdi var að hún
skildi ekki hvers vegna Atlantis taldi lífsgæði sín í framtíðinni eiga
að byggja á því að verða alþjóðleg miðstöð álframleiðslu.
Ímynd er ónákvæm, ímynd er byggð á reynslu og þekkingu en líka á
vanþekkingu, það þurfa aðeins nokkrar myndir og tákn að fljóta upp á
yfirborð heimsmedíunnar til að smám saman fari að kvarnast úr ímynd.
Hvenær hættir maður að vera hreint land? Ég fékk hrátt hrefnusushi um
daginn og það var eitt besta kjöt sem ég hef smakkað. En kjötið kostaði
200 krónur kílóið. Maður hugsaði, eiga menn sem geta ekki selt kjötið
dýrar en þetta skilið að veiða svo fallega skepnu og særa þar með
milljón viðkvæma þjóðverja sem hafa öfuga fordóma og faðma mann fyrir
það eitt að koma frá Íslandi?
Ég velti síðan fyrir mér hvort firringin á Íslandi sé kannski bundin
í þeim sem telja sig þekkja raunveruleikann, þeirra sem ekki geta metið
fossana sem hluta af ímyndarhöfuðstól þjóðarinnar heldur eitthvað
,,vannýtt". Sjómenn sömuleiðis, margir þeirra vilja veiða hvali en
hvaða áhrif hefði það á ímynd fisks frá Íslandi og þar af leiðandi
verðmæti afurðanna? Ef þeir gefast upp og segja: Icelandic sailors are
whales best friends", gæti verið að verðið rjúki upp um einhver 10%?
Það eru milljarðar.
Vörumerkið Ísland®, hvað á það að tákna? Það má alveg fara að velta því alvarlega fyrir sér.
Andri Snær Magnason