Málþing um íslenska hönnun á Kjarvalsstöðum á menningarnótt 2007 | Elísabet V. Ingvarsdóttir

Hvert sækja hönnuðir innblástur og hver er sérstaða íslenskrar hönnunar. Hvað gerir íslenska hönnun að íslenskri hönnun?

Eru það Geysismyndir og hraunmolar, sauðagæra og selskinn eða eru það þær aðstæður og umhverfi sem hún mótast og sprettur úr? Gerir það hönnun íslenska að vera gerð af Íslendingi eða að vera gerð á Íslandi? Voru verk Le Corbusier frönsk eða svissnesk og hver á Ólaf Elíasson?

Þó orðið hönnun hafi ekki komið inn í íslenskuna fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar þá höfðu íslenskir hönnuðir verið starfandi allt frá þriðja áratugnum og leitast eftir því að skapa íslenskri hönnun ímynd og að sjálfsögðu og eðlilega mótaðir af því umhverfi sem fóstraði þá. Það er oft eins og okkur vanti eilítinn kjark til þess að taka afstöðu til sögunnar og sjá mikilvægi þess að skapa samræmda ímynd og sérstöðu án þess að falla alltaf í þá gryfju að skilgreina íslenska hönnun sem eitthvað sem "er alveg að koma", "er kraftmeira en allt annað, kraumandi og skapandi. Segja má að afstöðuleysið endurspeglist einna helst í gömlu klisjunni "það getur allt gerst" ... og við erum bara allt öðruvísi en allt annað. Sá tónn, sem hefur hljómað um töluvert langt skeið og fylgt kynningu á íslenskri hönnun, að lýsa íslenskri hönnun sem einhverskonar nýju fyrirbæri í íslensku samfélagi, fer að hljóma nokkuð klisjulega. Hönnun er og á að vera sjálfsagður hluti íslensks menningarsamfélags. Þó rétt sé sú líking sem sett er fram í sýningarskrá að íslensk hönnun sé unglingurinn í hópnum innan skandínavískrar hönnunar, þá gefur kunnuglegi tónninn "þetta er allt að koma" til kynna að íslensk hönnun sé enn í sandkassanum og það veikir mikilvægi og merkingu hennar þar sem máli skiptir að hún vinni sér sess.

Þó íslensk hönnun hafi ekki á ríkri hefð að byggja þá er kominn tími til að viðurkenna að hefð og stöðugleiki ætti að hafa skapast á ýmsum sviðum hönnunar ef litið er til aldurs greinarinnar. Það hefur á margan hátt verið umræðunni, þróuninni og almennri viðurkenningu og þekkingu á greininni fjötur um fót að sífellt er reynt að finna upp hjólið í stað þess að færibandið haldi áfram við stöðuga þróun þar sem byggt er ofaná reynslu og þekkingu þeirra sem ruddu brautina þó að vísu hafi brautin verið grýtt og sundur höggin á sumum stöðum. Sjálfsagt má einnig rekja þessa einskonar nýjungagirni eða uppfinningaáráttu til vöntunar á fræðilegri og faglegri umræðu um hönnun og rannsóknum á því sviði. Rannsóknir og fræðileg umræða munu varpa ljósi á þróun hönnunar á Íslandi og úr hvaða grunni hún er sprottin. Auka þarf almenna umfjöllun um hönnun og miðlun um íslenska hönnun til eflingar almennrar vitundar. Umræðan hefur undanfarin ár verið á alltof þröngu sviði. Hér á sýningunni er íslensk hönnun kynnt sem kvik, kraumandi, hrífandi og skapandi og full af innblæstri. Mörg íslensk hönnun í dag ber þess einkenni að töluverður stöðuleiki er að nást. Slíkt þarf samt alls ekki að þýða að ekki sé frjó hugsun til staðar og að geldingabragur sé á þeim vaxtarbroddum sem með eru hér á sýningunni. Þar á að sjálfsögðu allt að vera kvikt og kraumandi enda eðli þess óþroskaða. Hinsvegar má ekki marka stöðu og sérkenni út frá vaxtarbroddum þó svo um samtímann sé verið að fjalla.  Við þurfum ekki nema að líta til fyrirtækja eins og Össurar og Marels til þess að sjá að hægt er að nýta hönnuði eins og  gert hefur verið þar nær frá upphafi af fullum alvarleika og með íslenska ímynd að leiðarljósi. Þar er komin hefð fyrir hönnuði og hönnunarteymi. Okkar einstaka Steinunn er enginn nýgræðingur og hefur hönnun hennar náð sérkennum sem sækja til Íslands fyrir allöngu síðan og á þann hátt að enginn er í vafa um það hver er á ferðinni. Henni hefur líka tekist að nýta sér landið sem uppsprettu án þess að þurfa að skreyta með því. Þannig hefur t.d. Dönum tekist svo listilega að skapa sér ímynd með því að einkenni eru samofin en ekki sett á.

Íslensk hönnunarsaga er hluti sögu lítillar þjóðar sem fór í gegnum ótrúlegt breytingarskeið á síðustu öld - Ísland er land sem byggði hefðir á sveitamenningu í byrjun síðustu aldar og hefur þróast yfir í alheimsvætt menningarumhverfi og er þátttakandi í alþjóðlegum viðburðum á fjölmörgum sviðum.  Um leið og tuttugasta öldin var tími móderniserígar eða nútímavæðingar í hinum vestræna heimi var þetta tími þar sem þjóðir reyndu að marka sér sess í samkeppnisumhverfi markað af dramatískum félagslegum og pólitískum byltum sem ýttu undir mikilvægi þess að byggja upp og skilgreina þjóðareinkenni. Á Íslandi blandaðist þetta við þjóðlega rómantík og sjálfstæðisbaráttu og síðan varð hönnun á Íslandi að mæta þeim óræðu spurningum og áskorunum sem póstmódernisminn fól í sér á sama tíma og hönnunin var að skjóta rótum.  Í dag í árdaga nýrrar aldar og á tímum alheimsvæðingar verða skilin oft óljósari og umræður víða í gangi um þörfina fyrir það að endurskilgreina eða styrkja þjóðareinkenni þegar hér eru sérkennin að skýrast, sagan að fá á sig mynd og mörg langþráð baráttumál hönnuða orðin nær því að verða að veruleika. Það er því ekki skrýtið að yfirborðið hafi einkennst af einhverjum óróleika og sjálfsagt hefur einyrkjabúskapurinn sem einkennt hefur hönnunarstéttina alltof lengi og samkeppni á litlum markaði verið framþróuninni oft fjötur um fót. Ég tel að verulegar breytingar hafi orðið á þessu og nú snúi hönnuðir bökum saman og ýmiss konar samvinna hefur verið í gangi sem skilað hefur áhugaverðum verkefnum margar stórar vinnustofur risið þar sem málin eru rædd á breiðari grundvelli út frá fjölbreytilegum hönnunarsviðum og tengslum við aðrar greinar sem skilar víðari þekkingu og fjölbreytilegri umræðu út í samfélagið.

Þetta er æ meir að eiga sér stað hér og  má t.d. nefna nefna prótótípuna fyrir slíkt  - samstarf hönnunarnema í Listaháskóla Íslands og nemenda í viðskiptum í Háskólanum í Reykjavík. Fleira jákvætt er í farvatninu eins og hönnunarrannsóknir innan vébanda LHÍ og fyrirhugað mastersnám þar, hönnunarvettvangur og vonandi rís hönnunarsafn á næstu árum. Þetta eru allt þættir sem eiga að vinna saman í því að skilgreina stöðu hönnunar, skrá söguna, miðla og skapa víðtækari þekkingu og móta breiðari umræðugrundvöll.

Í grein í nýjustu útgáfu tímaritsins Form sem Svensk Form gefur út talar hönnunarsagnfræðingurinn Kerstin Wickman um heimilislausa hönnunarumræðu í Svíþjóð. Þar á hún fyrst og fremst við vöntun á einhverskonar sérsniðnu hönnunarsafni þar sem hún telur að það ýti undir breiðari umræðugrundvöll um hönnun. Hönnunarsagnfræði sé í eðli sínu þverfagleg og komi inn á ólíklegustu birtingamyndir hönnunar svo sem markaðsetningu, neyslumenningu, tilgang og tíðaranda en spurningar um af hverju, hvaðan hvernig og hvert sé aldrei krufðar til mergjar í almennri umræðu og í fjölmiðlum. Fyrir þá sem komið hafa á arkitektasafnið í Stokkhólmi eða á föstu hönnunarsýninguna í Þjóðminjasafninu þar mundu sjálfsagt þakka fyrir slíkt hér og sjá að við eigum langt í land hvað þetta varða. Hinsvegar tel ég rétt eins og fram kemur í skýrslunni Hönnun auðlind til framtíðar sem unnin var af LHÍ (Halldór Gíslason og Sóley Stefánsdóttir) að mikilvægar en nokkuð safn og sýningar sé hinsvegar öflug menntun þróun og fræðilegar rannsóknir. Slíkt er grunnur þess að skilgreina okkar séreinkenni nánar og skilja og þekkja það sem við byggjum þau á - semsagt til þess að skilgreina það sem mér var ætlað ...uppsprettubrunn íslenskrar hönnunar.

 

Elísabet V. Ingvarsdóttir