Te & Kaffi og Royal, sterk blandaTe og kaffi er mjög gott dæmi um fyrirtæki þar sem góð hönnun hefur verið innleidd í markaðsstarfið með frábærum árangri. Það eru ekki nema 3 ár síðan fyrirtækið fór að nota markvisst allskyns hönnun til að styrkja stöðu sína. Eigendur fyrirtækisins hafa verið frá upphafi þau hjónin Sigmundur Dýrfjörð og Berglind Guðbrandsdóttir. Þau stofnuðu Te og kaffi árið 1984 og opnuðu fyrstu verslunina að Barónstíg 18 það ár. Við hjá Hönnunarvettvangi ræddum stuttlega við Sigmund og hönnuðina Ísak Winther og Pétur Guðmundsson sem hafa séð um að hanna fyrir Te og kaffi, allt frá límmiðum upp í útlit kaffihúsa eins og t.d. í Eymundson í Austurstræti.

HÖNNUNIN GEKK FYRST Í STAÐ ÚT Á AÐ ÚTBÚA LIMMIÐA

Gefum Sigmundi fyrst orðið. „Fyrstu tvö árin þurftum við ekki að lifa af rekstrinum, þannig að hægt var að byrja með tvær hendur tómar, byggja reksturinn upp rólega og halda öllum kostnaði í lágmarki. Teiknari sem er tengdur inn í fjölskylduna teiknaði fyrsta lógóið sem var teketill með bogadregnu nafninu undir og málaði hann það síðan á hvítlakkaða járnplötu sem við hengdum utan á búðina. Hönnun hjá okkur í þá daga gekk mest út á að láta útbúa límmiða til að merkja vöruna okkar.

HÖNNUÐIR MEÐ BRENNANDI ÁHUGA OG ÁSTRÍÐU FYRIR KAFFI

Tilviljun réð því í raun að við kynntumst Ísaki og Pétri á réttum tíma. Við vorum að vinna að því að fara út á hinn almenna markað með kaffið okkar og höfðum fjárfest í nýrri pökkunarvél sem gerði okkur kleift að pakka kaffinu fersku. Planið var að byrja á því á 20 ára afmælisárinu 2004.  Við töldum að þetta væri rétti tíminn til að  vinna að breytingum á umbúðum og útliti. Eftir að hafa kynnst Ísaki, Jóhönnu og Pétri sem höfðu brennandi áhuga á góðu kaffi, fundum við að þau höfðu þessa „ástríðu”  fyrir verkefninu ef svo má segja. Síðan þá hefur þetta verið ein samfelld sigurför.

STERKARI ÍMYND MEÐ HJÁLP FYRSTA FLOKKS HÖNNUNAR

Það er kostnaðarsamt að fara í svona mikla breytingar eins og þær sem við gerðum með ekki stærra fyrirtæki en svona breyting skilar sér í verðmætara fyrirtæki á markaðinum bæði ímyndarlega og í framtíðinni einnig hagnaðarlega. Það er ekki spurning í mínum huga að fyrirtækið væri ekki eins verðmætt í dag ef ekki hefði verið farið í þessa markvissu velígrunduðu hönnunarvinnu. Eins er gaman að segja frá því að öll viðbrögð sem ég hef fengið vegna nýrrar hönnunar sem við höfum ráðist í hafa verið jákvæð.

AUKINN ÁHUGI Á HÖNNUN

Áhugi minn á hönnun hefur aukist og ekki síður virðing mín fyrir skapandi hugmyndum. Ekki er verra þegar þær ná  til íslensks iðnaðar og framsetningar á vöru sem framleidd er  á íslandi og niðurstaðan verður sterkara og verðmætara brand.

HÖNNUNARSTOFAN ROYAL

Hönnunarstofan Royal sem er til húsa í Aðalstræti í Reykjavík hefur séð um að hanna nýtt kynningar og markaðsefni fyrir Te og kaffi auk umbúða og útlitshönnunar á nokkrum kaffihúsum. Ísak Winther er með BA gráðu í vöruhönnun (nytjahlutahönnun) frá Listaháskóla íslands en hafði áður starfað við grafíska hönnun í rúmlega 13 ár í Noregi og á Íslandi. Pétur Guðmundsson er með BA gráðu í grafískri hönnun frá LHÍ. Pétur vann hjá Gagarín og auglýsingastofunni Fíton í fjölbreyttum verkefnum áður en hann og Ísak stofnuðu Royal. Ísak hafði þá verið að vinna sjálfstætt, m.a. unnið mikið fyrir Sigur Rós og vann allt efni sem tengdist útgáfu á geisladisknum „Takk…”, allt frá Billboards-skiltum í Bretlandi til barmmerkja í Japan. „Takk“ vann íslensku tónlistarverðlaunin árið 2005 fyrir plötuumslag ársins. Royal hefur síðan haldið áfram að vinna fyrir Sigur Rós en einnig sérhæft sig í útliti/ímynd fyrirtækja (Corporate Identity), innréttingum og útstillingar.

TILVILJUN RÉÐI ÞVÍ HVERNIG SAMSTARFIÐ HÓFST

Tilviljun réði því að Ísak hannaði veggspjald sem tengdist Te og Kaffi. Sigmundur var mjög ánægður með útkomuna og sagðist þurfa á grafískum hönnuði að halda. Ísak fékk þá Pétur og Jóhönnu Svölu, grafíska hönnuði, í lið með sér, þau kynntu sér fyrirtækið ásamt eldra efni sem gert hafði verið og komust að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að hanna nýtt útlit á frá grunni og útbúa heildarstefnu fyrir fyrirtækið og vörur þess til framtíðar.

HVERNIG HEFUR SAMSTARFIÐ VIÐ TE OG KAFFI GENGIÐ?

Ísak segir samstarfið hefur gengið mjög vel allan tímann. Við kynntum okkur vöruna það vel að það hefur ekki komið upp neinn ágreiningur sem snýr að hönnun eða útliti. Það er helst að við hefðum viljað gera meira. En það er stórt skref og mikil fjárfesting fyrir hvaða fyrirtæki sem er að endurhanna allt sitt efni og þó svo að við höfum ekki getað gert allt þá hafa flestar þær hugmyndir sem við höfum fengið á þessum tæpu fjórum árum orðið að veruleika að lokum. Fyrirtækið hefur vaxið mikið á undanförnum árum og eigendurnir farnir að átta sig á því að nýja útlitið sem fyrirtækið fékk á sínum tíma, ásamt virkri hönnunarstjórn og þáttöku okkar í nánast öllu sem kemur að merki og hönnun fyrirtækisins, er farið að hafa mikil áhrif.

Finnst YKKUR mikið vanta á að íslensk fyrirtæki hafi til að bera skilning á mikilvægi góðrar hönnunar?

Mörg stór fyrirtæki á Íslandi eru greinilega farin að skilja mikilvægi þess að vera með gott brand. Má þar nefna Icelandair, íslensku bankana, 66 North, Latabæ og CCP. Lítil fyrirtæki eru mörg mun verr stödd og það eru fá fyrirtæki í þeim hópi sem hafa verið nægilega dugleg að huga að mikilvægi hönnunar. Það þyrfti að gera stórátak til að auka skilning þeirra á gildi góðrar hönnunar.

hvernig mætti auka veg og virðingu hönnunar hjá íslenskum fyrirtækjum?

Íslensk fyrirtæki verða sjálf að uppgötva mikilvægi góðrar hönnunar í samkeppnisumhverfi sínu. Staðreyndin er sú að vönduð hönnun skilur árangri og er án vafa ein besta fjárfesting sem völ er á.

dæmi um nýlega íslenska hönnun sem YKKUR finnst skara framúr og hafa vakið sérstaklega athygli YKKAR?

Guðrún Lilja (inner beauty), tölvuleikurinn Eve og pallíettuveggurinn hjá Hans Petersen Bankastræti.