Hönnun

Við höfum lagt undir okkur jörðina, við tókum drottinn á orðinu og endurhönnuðum sköpunarverkið. Heimurinn er hráefni sem endar einhvers staðar hannaður á sínum stað, hönnun er sköpunarkraftur og eyðingarafl eins og við sjálf.

Við erum umkringd hönnun. Það tekur ár að byggja eitt hús en inni í húsinu eru samanlögð þúsund mannár í hönnun. Stólar, diskar, símar, föt, lyklakippur, rúm og sófar og bíllinn og á hverjum degi koma mannár inn um lúguna.

Hönnun gerir út á þrá okkar og veikleika. Hún er frumaflið sjálft, hin eilífa þörf, drifkraftur framfara og þróunar, hún hrærir upp í skoðunum okkar, hún heldur skynfærum vakandi, kemur í veg fyrir stöðnun, fúlnun, trénun. Í hönnun berjast hugmyndir fyrir lífi sínu, nýr hönnuður ryður úr vegi þeirri hönnun sem fyrir var, vetrarlínan, sumarlínan, haustlínan, endalaus línuleg hönnun og endursköpun út í hið óendanlega. Hönnun er sjálfri sér grimmust. Hönnun greinir okkur í ár og tímabil, kynslóðir, lífsafstöðu, stétt og stöðu. Í fatahrúgum geymslunnar má lesa jarðsöguna, landnámslagið, Corona buxur, Duran Duran tímabilið. Allt endar þetta í gámi hjá Rauða krossinum sem sendir fötin aftur til landsins sem framleiddi þau.

Hönnun er drifin áfram af óskiljanlegu fegurðarskyni mannsins, krummanum í okkur sem safnar öllu sem glitrar, við fyllum laupinn. Fallegur hlutur verður venjulegur, síðan ljótur, loks vandræðalegur og fyndinn áður en hann verður aftur fallegur og jafnvel ómetanlegur. Hönnun er þekking sem getur fundið gull í geymslunni en samt má spyrja: varð 10 ára gamall Kjarval einhvern tíma vandræðalegur?

Hönnun er frelsi en hún er líka ógnvaldur, tískulöggan kemur ef þú fylgist ekki með. Hönnun er lausn á vandamálum og hún er vandamálið sjálft. Hún er drasl og hún er lúxus og hún er einnota og eilíf, hún er stundleg og klassísk en tíminn ræður úrslitum og getur snúið öllu á hvolf, hið stundlega verður tímalaust og einnota verður klassík eða list.

Hönnun auðveldar okkur lífið, hannar lausnir og uppfyllir þarfir. Ef ekki þarf að uppfylla þarfir getur hönnun framleitt löngun í hluti sem við höfum ekki þörf fyrir. Þannig er hönnun forsenda verksmiðjunnar en ekki öfugt, þegar „raunveruleg" þörf fyrir framleiðsluna er ekki fyrir hendi. Hönnun skapar þannig vinnu og löngun til að vinna. Þannig höldum við okkur á floti, þannig finnum við okkur tilgang og markmið.

Hönnun; kjarninn í lífsgæðakapphlaupinu, sjálfsmyndarbyggingunni, þjóðfélagsstöðunni, skilaboðin um hver maður er, Chanel, Levis, Aalto, Starck, Lada og Cayenne. Hönnun er ábyrgðarlaus, blóðdemantar, gullnámur, fílabein og þrávirkar gúmmíendur. Hummer og hraðbrautir, Ford F350 pallbíll og „urban sprawling". Allt hannað og hugsað, vel hannað eða vanhugsað? Tekk komst í tísku og viðurinn hvarf nánast af yfirborði jarðar. Úti á gangstétt nágrannans liggur heill gámur af tekki á meðan húsið er fyllt af hvítri naumhyggju til þess eins að hann sjái eftir tekkinu eftir 5 ár. Hönnun gosdósar árið 1963 varð forsenda virkjunar á Íslandi árið 2002.

Sumir segja að það verði umfram allt hönnun sem muni ráða úrslitum um samkeppnishæfni þjóða í framtíðinni. Hönnun muni ráða því hvernig fyrirtækin spjara sig. Þótt menn nái langt í tækniþróun þá ratar hún ekki til fólksins nema gegnum góða hönnun. Þegar forskotið var áður í öflugri verksmiðju eða iðnaðar- og tæknimönnum þá er það hönnunin sem gerir fyrirbæri eins og iPod að stórveldi.

Hin auðlindasnauða Danmörk er með meiri landsframleiðslu á mann heldur en Íslendingar og flytur út sérhönnuð húsgögn árlega fyrir meira en 200 milljarða. Þeir hanna Legókubba en framleiðslan er komin til Rúmeníu frá Billund. Á meðan stjórnmálamenn á Íslandi hafa verið uppteknir við að „skapa störf", finna fólki eitthvað að gera, þá höfum við mislesið þróunina í heiminum.

Við mokuðum verðmætum á land en hættum að hafa innsýn í hvernig mesta verðmætasköpun heimsins fer í raun og veru fram. Einhverra hluta vegna hefur hönnun á Íslandi lent á hillu með föndri, að sauma veski úr roði eða búa til upptakara úr hrútshorni, hönnun; aðferð til að nýta afganga bændasamfélagsins. Við höfum vanmetið valdið sem okkur er gefið til að skapa verðmæti úr engu eða velja okkur hráefni í stað þess að hráefnið velji okkur. Mörgum foreldrum hefur þótt það ábyrgðarlausir draumórar að læra hönnun, það mætti færa fyrir því rök að mörg fyrirtæki á Íslandi væru stærri í dag ef þau hefðu lagt meiri áherslu á góða hönnun. Íslendingar hafa of oft staðsett sig á ákveðnum enda færibandsins, sem afleiðing eftirspurnar á hráefnismarkaði heimsins en ekki þeir sem búa til þörfina fyrir loðdýrabú, saumastofur eða málmbræðslur.

Ísland er að mörgu leyti góður staður fyrir hönnun, þjóðin er ung og hér er jarðvegur og efniviður, orka og innblástur, landið er fullt af sögu á sama tíma og úthverfin eru sögulaus og koma í veg fyrir að sagan verði að oki, menn geta valið sér fyrirmyndir að vild. Hér er hægt að prófa hluti og fá hugmyndir sem geta smitast út í heim og það er tækifæri sem ætti að vera hægt að nýta sér til hins ítrasta.

Hönnun er og verður hluti af hringrás og hún þarf að viðurkenna hana og vita af henni frá upphafi. Góð hönnun verður ekki endilega það sem endist vel eða eilíflega heldur ekki síst það sem endist eins og þarf og er auðvelt og ódýrt í endurvinnslu. Hönnun þarf að framleiða nýjan lífsstíl og viðhorf, í framtíðinni þurfa litlir bílar að verða tákn fyrir karlmennsku og strætisvagn tákn fyrir auðlegð, það þarf að hanna öðruvísi borgir, annars konar hús, annars konar umbúðir og nýjar hugmyndir. Þar verður samkeppnisforskot 21. aldarinnar, eða öllu heldur það verður hönnun 21. aldar sem mun ráða úrslitum um lífsgæði 22. aldar vegna þess að ekki verður endalaust hægt að endurhanna sjálft sköpunarverkið.

Andri Snær Magnason