Á fyrirlestri Hönnunarmiðstöðvar, þann 13. mars mun Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt kynna verkefni sem byggja á endurnýtingu hráefnis sem áður hefur verið sett til hliðar sem úrgangur. Á fyrirlestrinum fjallar hún um hugmyndafræði, hönnun og úrvinnslu þeirra verkefna sem hún er með hugann við þessa dagana. Fyrirlesturinn fer fram í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, fimmtudaginn 13. mars kl. 20.
„Úrgangur“ er vaxandi vandamál, áhugi á vistvænum lausnum og enduvinnslu eykst með ári hverju, sú staðreynd að hráefnisskortur mun aukast á komandi árum leiðir hugann að því að nýta betur hráefni sem við köllum úrgang.
Dagný Bjarnadóttir lauk námi sem landslagsarkitekt frá KVL (den Kongelige veterinær og Landbohöjskole) í Kaupmannahöfn 1992. Verk Dagnýjar byggja á yfir 20 ára starfsreynslu á fagsviði landslagsarkitekta, en hún starfar undir nafninu DLD - Dagný Land Design.
Verkefni Dagnýjar eru fjölbreytt, þar á meðal eru innsetningar, vöruþróun og hönnun á nytjahlutum.
Gróður -húsgögnin Furnibloom hafa vakið athygli víða um heim og urðu til þess að hún var valin til að hanna samnorræna landslagsarkitektúr sýningu, New nordic landscapes í tengslum við Expo í Shanghai 2010.
Einnig var Dagný hluti af þverfaglegu hönnunarteymi Flikk Flakk þáttanna sem sýndir voru í ríkissjónvarpinu sumarið 2012.
Fang – útihúsgögn úr íslenskum grisjunarvið, smíðuð á Litla Hrauni og gegndræpt yfirborðsefni úr gleri og grjóti verða m.a verkefni sem kynnt verða í fyrirlestrinum.
Fyrirlesturinn verður haldinn í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, fimmtudaginn 13. mars og hefst kl. 20.00. Fyrirlesturinn fer fram á íslensku.
Hér má finna viðburðinn á Facebook.
Hönnunarmiðstöð stendur fyrir fyrirlestrum einu sinni í mánuði yfir veturinn í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Listasafn Reykjavíkur. Fyrirlestrarnir fara fram í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi á fimmtudögum kl. 20.00. Á fyrirlestrunum kynna hönnuðir og arkitektar verkefnin sín. Þá eru einnig tekin fyrir málefni líðandi stundar, er varða hönnuði og arkitekta.
Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.