Fyrirlestraröð í Hafnarhúsi

12.2.2014

Fyrirlestraröð | Mike Friton - Frumkvöðull í skóhönnun



Mike Friton hefur verið brautryðjandi í skóhönnun undanfarin 30 ár. Friton mun ræða sínar aðferðir í vöruhönnun, verkefnalausnir og reynslu á alþjóðamarkaði á fyrirlestri í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi þann 13. febrúar kl. 20.


Ferill Mike Fritons hófst á tilraunastofu Bill Bowermans, annars stofnanda Nike. Í kjölfarið vann Friton um árabil hjá fyrirtækinu og kom í framleiðslu alls fjórtán skótegundum. Má þar nefna hlaupaskóna Nike Air Terra Goatek sem hannaðir eru eftir geitarhófi og framtíðarskóna „Back to the Future“. Hann lét af störfum hjá Nike fyrir tveimur árum til að setja á markað eigið fyrirtæki sem hannar skó fyrir framsækin skóhönnunarfyrirtæki. Samhliða því kennir Friton skóhönnun við Art Institute of Portland.

Friton hefur lengi vel haft ástríðu fyrir þrívíðum formum sem nær út fyrir svið skóhönnunar. Síðasta áratug hefur hann gert margs konar tilraunir með vefnað og klippitækni og skapað úr því þríðvíðan textíl og skúlptúra úr pappír.

Mike Friton dvelur hér á landi í þrjár vikur og starfar hjá fyrirtækinu Össuri, sem er leiðandi á heimsvísu í hönnun og framleiðslu stoðtækja, spelkna og stuðningsvara.

Fyrirlesturinn verður haldinn í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, fimmtudaginn 13. febrúar og hefst kl. 20.00. Fyrirlesturinn fer fram á ensku. Hér má finna viðburðinn á Facebook.

The Innovator from Cineastas on Vimeo.


Hönnunarmiðstöð stendur fyrir fyrirlestrum einu sinni í mánuði yfir veturinn í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Listasafn Reykjavíkur. Fyrirlestrarnir fara fram í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi á fimmtudögum kl. 20.00. Á fyrirlestrunum kynna hönnuðir og arkitektar verkefnin sín. Þá eru einnig tekin fyrir málefni líðandi stundar, er varða hönnuði og arkitekta.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.