Fyrirlestraröð í Hafnarhúsi

14.9.2013

Fyrirlestraröð | Ný kynslóð hönnuða – Young Talents



Á fyrsta fyrirlestri Hönnunarmiðstöðvar þennan veturinn, munu þær Þórunn Árnadóttir vöruhönnuður og Magnea Einarsdóttir fatahönnuður kynna verkefni sín. Þeim var á dögunum boðið að taka þátt í norrænni kynningardagskrá hönnuða sem haldin var í Berlín dagana 1.- 3. september.

Þórunn Árnadóttir útskrifaðist úr vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2007. Árið 2011 lauk hún MA-námi í vöruhönnun frá Royal College of Arts í London. Hún hefur starfað sjálstætt sem vöruhönnuður síðustu árin og meðal annars getið sér gott orð fyrir verkin Sasa Clock, Pyro Pet og Berg. Nýverið var Þórunni gerð skil í hönnunartímaritinu Icon sem ein af fimmtíu áhugaverðustu hönnuðum sinnar kynnslóðar í heiminum.

Magnea Einarsdóttir útskrifaðist frá Central Saint Martins College of Arts and Design árið 2012. Í skólanum lærði Magnea fatahönnum með áherslu á prjón. Hún hefur einnig stundað nám í Parsons Paris School of Design. Í fyrra lenti Magnea í öðru sæti í fatahönnunarkeppninni Muuse x Vogue Young Talents. Verðlaunin fékk hún fyrir útskriftarverkefni sitt sem var fatalína. Í kjölfarið hefur Magnea hannað aðra fatalínu í samstarfi við Muuse x sem hefur bæði verið sýnd á London Fashion Week og Copenhagen Fashion Week. Haust- og vetrarlína Magneu er væntanleg á íslenskan markað innan skamms.

Um norrænu kynningardagskrána í Berlín: Upprennandi norrænum hönnuðum og arkitektum var boðin þátttaka í norrænni kynningardagskrá sem haldin var í Berlín dagana 1.-3. september. Þar af voru þrír frá Íslandi valdir til þáttöku úr hópi umsækjanda, en það voru þær Þórunn Árnadóttir, Magnea Einarsdóttir og Kristín Eva Ólafsdóttir grafískur hönnuður. Goethe-stofnunin stóð fyrir dagskránni og var hún einnig styrkt af Norðurlandaráði.

Fyrirlesturinn fer fram í Hafnarhúsinu, fimmtudaginn 19. september kl. 20.



Hönnunarmiðstöð stendur fyrir fyrirlestrum einu sinni í mánuði yfir veturna í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Listasafn Reykjavíkur. Fyrirlestrarnir fara fram í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Á fyrirlestrunum kynna hönnuðir og arkitektar verkefnin sín. Þá eru einnig tekin fyrir málefni líðandi stundar, er varða hönnuði og arkitekta. Allir velkomnir.