Fyrirlestraröð í Hafnarhúsi

20.11.2012

Fyrirlestraröð | Um bókstafinn ð



Anton Kaldal Ágústsson, Gunnar Vilhjálmsson og Steinar Ingi Farestveit eru grafískir hönnuðir sem hafa um árabil rannsakað bókstafinn ð. Og nú fyrir skömmu kom út bókin ð-ævisaga þar niðurstöður þeirra eru teknar saman með fulltingi Stefáns Pálssonar sagnfræðings. Anton, Steinar og Stefán ætla deila sinni vitneskju um ð-ið í Hafnarhúsinu, Listastafni Íslands, þann 22. nóvember klukkan 20-21:30.

Þá ætlar Gísli B. Björnsson einnig að segja frá ólíkum skólum og kenningum í teiknun ð-sins í gegnum árin. Gísli B er einn atkvæðamesti grafíski hönnuðurinn í íslenskri hönnunarsögu á 20. öld. Hann hefur m.a. hannað fjölda bókakápa og mörg þekkt merki fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana í samvinnu við samstarfsfólk sitt. Þess má geta að nú stendur yfir sýning á verkum hans í Hönnunarsafni Íslands: GÍSLI B. – FIMM ÁRATUGIR Í GRAFÍSKRI HÖNNUN.

Hörður Lárusson, grafískur hönnuður stjórnar umræðum eftir innlegg ð-sérfræðinganna og Crymogea verður með nokkrar vel valdar bækur á tilboðsverði.

ð ævisaga
Sagan af því hvernig útdauður bókstafur varð óaðskiljanlegur hluti nútímaíslensku er ævintýraleg og fáum kunn. Ð-ið var fyrst var dregið með fjöðurstaf engilsaxneskra munka, hreiðraði um sig hjá íslenskum skrifurum á miðöldum en datt svo úr tísku og sást ekki í íslensku í margar aldir. Það sást fyrst á prenti í Lundúnum á tímum Elísabetar fyrstu, rataði á íslenskar bækur í Kaupmannahöfn á tímum Fjölnismanna uns það varð að alþjóðlega viðurkenndu stafatákni í upphafi 21. aldar. Þetta er ævisaga fagursveigða ð-sins. Það má vera að það sé hæverskasti bókstafur stafrófsins, en líf þess hefur verið einstaklega viðburðaríkt.

Leturhönnuðirnir Fred Smeijers og Toshi Omagari hönnuðu sérstaka gerð ð-sins fyrir bókina. ð - ævisaga er gefin út af Crymogea sem verður með vel valdar bækur í Hafnarhúsinu til sölu á góðu verði í tilefni ð-umræðunnar.

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar Íslands í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Listasafn Reykjavíkur.

Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhúsi fimmtudaginn 22. nóvember, klukkan 20-21:30, viðburður á Facebook.

Eftir málþingið verður haldið á Dollý (gamli Dubliners) þar sem umræður um ð-ið geta haldið áfram, sýnist fólki svo.