Fimmtudaginn 18. október klukkan 20 verður efnt til umræðna í Listasafni Reykjavíkur um menningararf og hönnun, en á síðustu áratugum hafa vísanir til menningararfs Íslendinga orðið æ sýnilegri í hönnun hérlendis. Um leið hefur orðræðan um menningararf sótt í sig veðrið opinberlega og ekki virðast allir sammála um hvar draga skuli línuna á milli ómetanlegra þjóðargersema og þess sem ómerkilegra þykir í okkar menningarsögu né hvernig okkur beri að meðhöndla og umgangast þessar sömu gersemar. Skemmst er að minnast fréttaflutnings um íslensku lopapeysuna og hugmyndir stjórnmálamanna um hvar hyggilegast væri að framleiða lopapeysuna án þess að þjóðleg gildi hennar og séríslensk einkenni glötuðust í framleiðsluferlinu.
Reglulega koma upp mál í fjölmiðlum um íslenska hönnun, gildi hennar og skilyrði þess að hún geti kallast íslensk. Umræðan snýst þá gjarnan um íslenskan menningararf og birtingamynd hans í íslenskri hönnun. Á málþinginu langar okkur að ræða um slík mál ásamt því að ræða um hönnunarvernd og hönnunarstuld á vörum byggðum á íslenskum menningararfi.
Stjórnandi málþingsins verður
Ólöf Gerður Sigfúsdóttir mannfræðingur og forstöðukonu rannsóknarþjónustu við Listaháskóla Íslands.
Í pallborði verða fræðingar og hönnuðir af sviði þjóðfræði, lögfræði, viðskiptafræði, vöru- og fatahönnunar. Þeir munu allir halda stutt erindi (5-7mín) áður en efnt verður til umræðna með þátttöku áheyrenda úr sal. Erindin verða í eftirfarandi röð;
1.
Egill Viðarsson, þjóðfræðingur og tónlistarmaður
Um menningararf og höfundarrétt.
2.
Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands
Birtingamynd menningararfsins í íslenskri hönnun og fortíðin sem söluvara. Halla mun tala almennt út frá málum sem hafa verið að koma upp hjá hönnuðum undanfarið.
3.
Sunneva Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri Handverks og hönnunar.
Sérstaða íslensk handsverks og handverksfólks, handverk vs. hönnun.
4.
Lovísa Jónsdóttir, viðskiptalögfræðingur hjá Tego hugverkarráðgjöf
Um tilvísanir, höfurndarétt og hönnunarvernd – lögfræðihliðin á málinu.
5.
Bergþóra Guðnadóttir, hönnuður og annar af stofnendum Farmers Market
Um framleiðslu og rekstur fyrirtækis sem selur íslenska hönnun, sem m.a. hefur tilvísun í íslenskan menningarf og er að hluta til úr íslensku hráefni.
Málþingið er hluti af fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar Íslands í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands.
Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhúsi fimmtudaginn 18. október, klukkan 20-21:30, Viðburðurinn á facebook
Eftir málþingið verður haldið á Dollý (gamli Dubliners) þar sem umræður geta haldið áfram fyrir þá sem vilja.
Tilboð á barnum fyrir okkur og rockabilly tónlistarþema.
Mynd á auglýsingaborða: Birna Geirfinnsdóttir, grafískur hönnuður, notað með leyfi hönnuðar.