Fyrirlestraröð í Hafnarhúsi

26.8.2012

Fyrirlestur | Smári McCarthy




Miðstýring vs. dreifistýring: tveggja alda þróun valds í hönnun
Hafnarhús, fimmtudaginn 23. ágúst kl. 20

Hvernig geta ákvarðanir í hönnun, arkitektúr og skipulagi aukið vald almennings og fært honum aukinn sjálfsákvörðunarrétt? Er samfélag sem byggt er á dreifstýringu í eðli sínu öruggara og sjálfbærara en miðstýrð samfélög? Það er hönnuðurinn Smári McCarthy sem leitar svara við þessum spurningum í fimmtudagsfyrirlestri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, sem unnin er í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands.

Á þessu ári er hundrað ára fæðingarafmæli Alan Turing fagnað, en hugmyndir hans gerðu tölvutæknina að veruleika. Á sama tíma fögnum við tvö hundruð ára afmæli Lúddítahreyfingarinnar á Englandi, sem vildi með skemmdarverkum sínum á spunavélum og sjálfvirkum vefstólum færa framleiðsluvaldið frá ríkum verksmiðjueigendum til sérhæfðra iðnaðarmanna.

Í dag eru spurningar um miðstýringu og dreifstýringu, flæði valds og sjálfsákvörðunarrétt að færast æ meira inn í kjarna umræðunnar. Tölvuframleiðendur heyja í auknum mæli stríð gegn tölvum til almennra nota, með smíðum á lokuðum tölvubúnaði, sem notandinn hefur lítið sem ekkert vald yfir og geymir öll gögn í miðlægum gagnaverum í fjarlægum löndum. Lúddítarnir töpuðu og nú er allt milli himins og jarðar framleitt af ómenntuðu, fátæku verkafólki á stöðum eins og Shenzhen í Kína, þar sem milljónir eftirlitsmyndavéla fylgjast með ferðum allra.

Í fyrirlestrinum verða hugmyndir talsmanna miðstýringar á borð við Le Corbusier, Vladimir Lenin, Ludwig Mies van der Rohe, Stewart Baker og Steve Jobs skoðaðar og bornar saman við hugmyndir talsmanna dreifstýringar þeirra James C. Scotts, Peters Kropotkins, Adrians Bowyers, Phillips Zimmermans og Richards Stallmans.

Fyrirlesturinn er haldinn í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, fimmtudaginn 23. ágúst kl. 20.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er aðgangur ókeypis.