Fyrirlestraröð í Hafnarhúsi

20.9.2011

Fyrirlestur | Mareike GastMareike Gast iðnhönnuður fjallar um möguleika prentaðrar lífrænnar rafeindatækni frá sjónarhóli hönnuðar í fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar, LHÍ og Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsi fimmtudaginn 22. september kl. 20.

Rafleiðandi eða hálfleiðandi plast má prenta rétt eins og venjulegt blek. Þess vegna er hægt að prenta rafeindarásir, sólarhlöður, lífrænar ljósdíóður, rafhlöður og nema næstum eins og dagblað.

Lífræn rafeindatækni, það svið efnis- og tæknirannsókna sem lofar hvað mestu, er sérstaklega áhugaverð fyrir iðnhönnuði þar sem hún skapar nýja möguleika sem umbylta ekki aðeins vörunum sjálfum heldur einnig meðhöndlun þeirra, samskiptum við þær og þeirri þjónustu sem þær veita.

Allt í einu geta rafeindavörur orðið sveigjanlegar, gagnsæjar, litríkar, samfellanlegar, fisléttar, sjálfbærar hvað varðar orku og hreyfanlegar.

Spurningar hljóta þó að vakna, eins og: Framleiðir ódýr tækni eins og prentun endilega ódýrar einnota vörur eða hvernig líta prentaðar hágæðavörur út? Er hægt að móta sveigjanlegt undirlag eins og pappír eða málmþynnu með lífrænni rafeindatækni með hefðbundnum aðferðum og hver er útkoma þeirrar andstæðu? Hvernig samskipti á notandi við sveigjanlega rafeindatækni? Hvað ef prentuð lífræn rafeindatækni er endurnýtanleg eða lífbrjótanleg? Hvernig virka vörur sem eru sérprentaðar og hvernig líta þær út?

Fyrirlesturinn veitir yfirsýn um nýjustu þróun í prentun lífrænnar rafeindatækni og sýnir hugmyndir sem grundvallast á þessari tækni eftir hönnunarnema frá Burg Giebichenstein í Halle þar sem Mareike Gast kenndi sem gestakennari árið 2011.

www.mareikegast.de