Mótun daglegs lífs: Nýleg verkefni Arkitektastofu Söruh Wigglesworth
Sarah Wigglesworth arkitekt mun fjalla um manngert umhverfi fyrir viðburði daglegs lífs í Fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar, Listaháskólans og Listasafns Reykjavíkur, þriðjudaginn 30. ágúst klukkan 20:00 í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur.
Sarah Wigglesworth arkitekt mun tala um áhuga stofunnar á að skapa merkingarbært sjálfbært umhverfi fyrir viðburði daglegs lífs. Verkefni stofunnar, sem eru nánast eingöngu á opinberum vettvangi fyrir ýmsa samfélagshópa, sveitarfélög og góðgerðasamtök, miða öll að sértækri rannsóknarvinnu og eru hönnuð sérstaklega fyrir hvern notendahóp. Rauði þráðurinn fjallar um skuldbindingu um samstarf við þá sem munu nota rýmið eða nýta sér verkefnið og rannsókn á því hvað sjálfbært manngert umhverfi felur í sér.
Sarah Wigglesworth hóf rekstur arkitektastofu í London árið 1994 eftir áralanga vinnu hjá stórum sem smáum fyrirtækjum á ýmsum sviðum, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. Árið 1998 var hún nefnd af Sunday Times sem "ein þriggja arkitekta úr hundrað manna hópi sem væri líklegust til að hafa áhrif á arktiektúrfagið á næstu tíu árum". Verk hennar hafa verið sýnd alþjóðlega og hún hefur haldið fyrirlestra um allan heim. Störf hennar miða einnig að því að auka áhrif kvenna í mótun manngerðs umhverfis, sem viðskiptavinir, notendur og sem arkitektar. Verk Söruh Wigglesworth hafa haft mikil áhrif á breskan arkitektúr og árið 2004 hlaut hún MBE verðlaunin fyrir þjónustu við arkitektúr. Sarah er prófessor í arkitektúr við Háskólann í Sheffield á Englandi.
Aðgangur er ókeypis.
Verið velkomin!