Fyrirlestraröð í Hafnarhúsi

16.11.2010

Fyrirlestur | Páll Hjaltason arkitekt

Hönnun íslenska skálans á Expó – ferli, áskoranir, árangur

Páll Hjaltason arkitekt, aðalhönnuður og listrænn stjórnandi íslenska skálans á Expó í Kína, fjallar um ferli, áskoranir og árangur verkefnisins í fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar, Listasafns Reykjavíkur og Listaháskóla Íslands fimmtudaginn 18. nóvember kl. 20 í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur.

Tillaga frá +Arkitektum og Saga Film var valin sem framlag Íslands á heimssýninguna í Sjanghæ sem stóð yfir frá 1. maí til 31. október sl. en sýningin var sú stærsta og umfangsmesta sem haldin hefur verið með þátttöku 186 þjóða og u.þ.b. 60 alþjóðastofnanna. Ímynd Íslands á alþjóðavettvangi var kynnt fyrir 2,3 milljónum gesta sem heimsóttu íslenska skálann.

Útlit íslenska skálans á Heimssýningunni 2010 í Sjanghæ var teningur úr striga með áprentuðum grafískum jökulís sem var baklýstur að kvöldlagi. Inní skálanum sýndu 8 myndvörpur 15 mínútna stuttmynd um Ísland í hárri upplausn. Varpað var á alla veggi og loft skálans og þannig skapað umlykjandi rými myndar og hljóðs. Leitast var við að skapa andrúmsloft í skálanum líku því og fyrirfinnst á Íslandi.

Landkynningarátak á sýningunni gekk út á að kynna mikilvægi náttúrulegra orkuauðlinda á Íslandi annars vegar og menningar, bæja- og borgarsamfélaga hins vegar. ‘Hrein Orka – Heilbrigt Líferni’ var yfirskrift íslenska skálans og fléttaðist það saman við aðalþema sýningarinnar – Betri borg, betra líf. Kynningarátakið miðaðist við vekja athygli á sérþekkingu íslensks lista-, vísinda- og viðskiptafólks, þá einkum og sér í lagi þeirra sem þegar eru í útflutningi á íslenskri menningu, þekkingu og vörum. Orku-, ferðamál og hönnun & hugvit voru þrjú helstu áherslusvið landkynningarátaksins á EXPÓ 2010.

Mikill áhugi var á Íslenska skálanum frá fjölmiðlum og almenningi í Kína en einnig fór þáttaka íslenskra fyrirtækja framar vonum.