HönnunarMars 2014 | DESIGNMATCH



Á HönnunarMars stendur Hönnunarmiðstöð fyrir kaupstefnunni DesignMatch í samstarfi við Norræna húsið. Þetta er í fimmta skiptið sem verkefninu er hleypt af stokkunum en það hefur mælst vel fyrir meðal hönnuða og þeirra fyrirtækja sem þátt hafa tekið.

Á DesignMatch gefst íslenskum hönnuðum tækifæri á að hitta norræna kaupendur og framleiðendur í þeim tilgangi að kynna fyrir þeim verk sín. Markmiðið er að skapa íslenskri hönnun brautargengi á einum mikilvægasta markaði Íslands, Norðurlöndunum.

Fjórir kaupendur hafa staðfest komu sína á kaupstefnuna DesignMatch á HönnunarMars 2014. Það eru Iittala, One Nordic, NormannCopenhagen og Wrong for HAY. Þá er beðið staðfestingar tveggja kaupenda til viðbótar.

Þeir kaupendur sem hafa komið á kaupstefnumótin síðustu ár eru:
2013: One Nordic Furniture Company, Design House Stockholm, Wrong for Hay, Juliet Kinchin sýningarstjóri í hönnunar- og arkitektúrdeild MoMA og Epal.
2012: Iittala, Artek, Design House Stockholm, DFTS Factory og Onecollection.
2011: Normann Copenhagen, Trendforcaster Steffan Nilson, DesignTorget
2010: Normann Copenhagen og Muuto

Umsóknarfrestur er til 19. febrúar 2014.
DesignMatch fer fram í Norræna húsinu föstudaginn 28. mars 2014.


Umsókn um þátttöku á DesignMatch 2014

  • Þú gerir grein fyrir hugmynd þinni, vöru eða aðferð á einni A4 síðu. Taka skal fram stöðu verkefnisins, t.d. hvort það sé tilbúið í framleiðslu, á hugmyndastigi, frumgerð (prótótýpa) sé til o.s.frv.Leyfilegt er að skila inn að hámarki 4 vörum/hugmyndum á alls 4 A4 síðum. Mikilvægt er að allar upplýsingar séu á ensku.

  • Þess að auki skal senda eina A4 síðu með almennum upplýsingum um sjálfan þig sem hönnuð, eins konar „moodboard“ eða „manifesto“ sem gefur góða mynd af þér sem hönnuður og hvað þú leggur áherslu á í verkefnum þínum. Grunnupplýsingar, ss. nafn, heimasíða, póstfang og sími skal koma fram á hverju blaði.

  • Þú sendir eina pdf. útgáfu með öllum skjölunum að hámarki 5 A4 síður (skjalið skal bera heiti hönnuðar) af kynningunum á soffia@honnunarmidstod.is undir yfirskriftinni DesignMatch 2014. Umsóknarfrestur er til og með miðvikudagsins 19. febrúar. Tekið skal fram í póstinum hvaða fyrirtæki sótt er um viðtal við ef eingöngu er óskað eftir að hitta ákveðinn kaupanda. Kaupendunum er sent kynningarefnið og þeir velja þá hönnuði sem þeir hafa áhuga á að hitta þegar þeir koma til Íslands.
  • Kaupendunum er sent kynningarefnið og þeir velja þá hönnuði sem þeir hafa áhuga á að hitta þegar þeir koma til Íslands. Þú bíður átekta og gerir hring utan um 28. mars í dagbókinni þinni.