KAUPSTEFNAN DESIGNMATCH
Í HönnunarMars stendur Hönnunarmiðstöð fyrir kaupstefnunni Design
Match í samstarfi við Norræna húsið. Þetta er í þriðja skiptið sem verkefninu er hleypt af stokkunum en það hefur mælst vel fyrir meðal hönnuða og þeirra fyrirtækja sem þátt hafa tekið.
Á DesignMatch gefst Íslenskum hönnuðum tækifæri á að hitta norræna kaupendur, framleiðendur og seljendur hönnunar í þeim tilgangi að kynna fyrir þeim verk sín. Markmiðið er að skapa íslenskri hönnun brautargengi á einum mikilvægasta markaði Íslands, Norðurlöndunum.
Í DesignMatch hefur verið lögð áhersla á vöru- og húsgagnahönnun og svo verður áfram. Fimm fyrirtæki hafa staðfest komu sína í ár. Það eru finnsku stórfyrirtækin Iittala og Artek, hin sænsku Design House Stockholm og DFTS Factory og hið danska Onecollection.
DesignMatch fer fram í Norræna húsinu föstudaginn 23. mars 2012.
Opnað verður fyrir innsendingar 15. janúar og frestur til að senda inn tillögur rennur úr 15. febrúar 2012.
Svona er ferlið:
- Þú gerir grein fyrir hugmynd þinni, vöru eða hlut á einu A4 blaði á ensku.
ATH að hver hönnuður má senda inn 3 vörur, hugmyndir eða hluti.
- Þú sendir pdf útgáfu (skjalið skuli bera heiti hönnuðar) af kynningunum á info@honnunarmidstod.is undir yfirskriftinni DesignMatch fyrir 15. febrúar.
- Kaupendunum er sent kynningarefnið og þeir velja þá
hönnuði sem þeir hafa áhuga á að hitta þegar þeir koma til Íslands.
- Þú bíður átekta og gerir hring utan um 23. mars í dagbókinni þinni.