Dagskrá HönnunarMars 2010 | Landslagsarkitektúr

FÍLAr þú miðbæinn?

Laugavegur, Skólavörðustígur, Bankastræti og Lækjartorg
19.03 – 21.03

Erum við ánægð með miðbæinn eins og hann er eða getum við gert betur?

FÍLA - Félag íslenskra landslagsarkitekta tekur stöðuna á miðbænum og breytir stöðumælum í blómainnsetningu á neðri hluta Laugavegar og Skólavörðustígs og niður að Lækjartorgi þar sem innsetningin endar með landslagi úr blómabreiðu.

Innsetningunni er ætlað að vekja athygli á að því að með því að endurhanna miðbæinn er hægt að skapa aukið svigrúm fyrir leik- og dvalarsvæði fyrir fólk á öllum aldri, miðbæ þar sem gangandi vegfarendur eru lykilpersónur, miðbæ með margvíslegum upplifunum og mannlífi.

Stöðumælarnir eru táknrænir fyrir forgangsröðun á þessu svæði. Með því að breyta þeim í blóm bendum við á að bíllinn er of þurftafrekur í miðbænum, hann mengar og veldur því að fólk gengur ekki án þess að sleppa hendinni af börnum sínum. Göturýmið mætti nýta fyrir dvalarsvæði og mannlíf í stað þess að bílar silist þar niður á gönguhraða.

Hönnuður blómanna er Dagný Bjarnadóttir. Þau eru gerð úr notuðu heyrúlluplasti og eru þar með skírskotun í umhverfisstefnu þar sem ákveðin endurvinnsla felst í verkinu.

Hlutverkasetur aðstoðaði við framleiðslu blómanna, en þar fer fram einstök starfsemi þar sem fólk byggir sig upp eftir atvinnumissi eða veikindi. Nánari upplýsingar um það er að finna á heimasíðu samtakanna hlutverkasetur.is.

Nú er rétti tíminn til að fara í endurskoðun á miðbæ Reykjavíkur og er innsetningin góðfúsleg blómstrandi ábending til borgaryfirvalda og íbúa að taka af skarið og loka ákveðnum götum fyrir bílaumferð og umhverfið í miðbænum með mannlíf í huga.

Formleg opnun er á Lækjartorgi föstudaginn 19. mars klukkan 17.00 og við það tækifæri mun Lúðrasveit verkalýðsins leika nokkrar miðbæjarstemmur auk þess sem vegfarendum verður boðið upp á blóðbergste úr íslenskri náttúru.














Dagskrá