Ráðhús Reykjavíkur, Tjarnargata 11
19.03 kl. 8:00-19:00
20.03 kl. 12:00-18:00
Þrátt fyrir að akstur utan vega sé bannaður með lögum þá er hann vinsælt sport á Íslandi. Á landinu eru til þúsundir torfæruhjóla, fjórhjóla og jeppabifreiða sem eru sérútbúnar til utanvegaaksturs. Notkun þessara tækja hefur skilið eftir sig þétt net vegslóða utan opinberra vega og árlega bætast nýir slóðar við. Fátítt er að nokkur sé ákærður eða sektaður fyrir þessi landspjöll og ekkert gert til að bæta skaðann. Opnir slóðar eru í raun merki um sátt samfélagsins við áframhaldandi eyðileggingu lands.
Gróðurþekjan á Íslandi skaðaðist mikið með eyðingu skóga í kjölfar landnáms. Ofbeit gekk síðar enn nærri gróðrinum, ekki síst eftir fjölgun fjár á nítjándu öld. Afleiðingarnar urðu jarðvegsfok og rofaborð sem enn má sjá á afréttum. Misjafnlega gisið gras og mosar mynda viðkvæma gróðurþekjuna sem eftir er. Eyðileggingu fyrri kynslóða má rekja til harðar lífsbaráttu, kunnáttu- og bjargleysis. Okkar kynslóð eyðir hins vegar landinu sér til afþreyingar og getur ekki skýlt sér á bak við fákunnáttu. Við gerum okkur bæði grein fyrir skaðanum og kunnum ráð til að græða landið upp aftur. Við nýtum okkur hins vegar ekki þessa kunnáttu.
Verkið sýnir utanvegaakstur á Reykjanesfólkvangi og er unnið af Kolbrún Oddsdóttir landslagsarkitekt og Sigurð Val myndlistamann í samstarfi við Evu Þorvaldsdóttur grasafræðing.