Erró samkeppni | verðlaunaafhending

Föstudagur 27.03 kl.12:00 - 13:00 | Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhús, 101 Reykjavík

Borgarstjórinn í Reykjavík, Hanna Birna Kristjánsdóttir, afhendir hönnunarverðlaun í samkeppni, sem efnt var til fyrir nokkru í gerð nytjahlutar með innblæstri eða tilvísun í listaverk eftir Erró.

Það eru Hönnunarmiðstöð Íslands, verslunin Kraum og Listasafn Reykjavíkur sem standa að samkeppninni, sem ætluð var fagmenntuðum hönnuðum og þeim sem heyra undir aðildarfélag Hönnunarmiðstöðvar Íslands. Þátttaka var vonum framar en einn verðlaunahafi hlýtur 500.000 króna verðlaun auk þess sem verðlaunagripurinn verður seldur í Hafnarhúsinu og verslunum Kraums í Aðalstræti og á Kjarvalsstöðum. Auk Listasafns Reykjavíkur og Kraums leggja Samtök iðnaðarins til verðlaunaféð.

Dómnefnd skipuðu Halla Bogadóttir formaður (Kraum), Þórey Vilhjálmsdóttir (Hönnunarmiðstöð Íslands), Soffía Karlsdóttir (Listasafn Reykjavíkur), Pálmar Kristmundsson arkitekt, Gunnar Vilhjálmsson grafískur hönnuður og Egill Egilsson vöruhönnuður.
 
Tíu af þeim 35 tillögum, sem sendar voru inn, verða sýndar um helgina í Hafnarhúsinu, en líklegt má telja að einhverjar þeirra muni fara í framleiðslu. Það er ósk þeirra sem að samkeppninni standa að hún megi efla íslenska hönnun og íslenskan iðnað samtímis því að auka veg og vanda íslenskrar myndlistar. Samkeppnin verður áviss viðburður en áherslan á listamenn verður breytileg.