26.07 | 27.03 | 28.03 | 29.03 kl.11:00 - 17:00 | Listasafn Íslands, Fríkirkjuvegi 7, 101 Reykjavík
Framlag Listasafns Íslands í HönnunarMars er Kúlan. Kúlan var
húsgagnaverslun í Reykjavík, stofnuð í apríl 1962, sem hafði það að
markmiði að selja ódýr og nýstárleg húsgögn og listmuni. Stofnendurnir
voru Manfreð Vilhjálmsson, Magnús Pálsson og Magnús Jóhannsson. Dieter
Roth er talinn hafa verið hvatamaðurinn að stofnun Kúlunnar. Í
húsakynnum kaffistofu Listasafns Íslands verða til sýnis húsgögn og
myndir er varpa ljósi á Kúluna.
Ljósmyndari: Ari Kárason © Ljósmyndasafn Reykjavíkur
3. apríl 1962, húsgagnaverslunin Kúlan við Skólavörðustíg 10, sennilega
daginn sem verslunin var opnuð. Í búðinni var sérstök barnadeild með
leikföngum og húsgögnum í barnaherbergi og teikningum eftir börn.
Myndir prýða veggi verslunarinnar, þar voru m.a. ljósmyndir, teikningar
og listaverk eftir ýmsa listamenn: Rafn Hafnfjörð, Guðmundur
Vilhjálmsson og Andrés Kolbeinsson, Hörður Ágústsson, Jón Gunnar
Árnason og Rolf Weher. Húsgögnin teiknuðu Manfreð Vilhjálmsson, Dieter
Roth og Magnús Pálsson, en þeir sáu líka um uppsetningu verslunarinnar.
Í versluninni voru líka seldir sérstæðir skartgripir eftir: Gunnar
Malmberg, Dieter Roth og Sigríður Björnsdóttir og öskubakkar eftir
Dieter Roth og Jón Gunnar Árnason. Kúlan var til húsa á horni
Skólavörðustigs og Bergstaðastrætis.
Á myndinni má sjá húsgögn hönnuð af Manfreð Vilhjálmssyni, sett saman úr fittingsrörum og púðar úr segldúk í sessum. Einnig má sjá á þessari mynd kúluna sem verslunin dró nafn sitt af. Hún hangir þarna í loftinu og lætur ekki mikið yfir sér. Kúluna smíðaði Gunnar Malmkvist úr gömlum tannhjólum úr klukku.
Ljósmyndari: Andrés Kolbeinsson © Ljósmyndasafn Reykjavíkur
16. maí 1962, ný húsgagnaverslun, Kúlan, við Skólavörðustíg. Táningahúsgögn, hönnuðir Dieter Roth og Magnús Pálsson.
Ljósmyndari: Andrés Kolbeinsson © Ljósmyndasafn Reykjavíkur
16. maí 1962, ný húsgagnaverslun, Kúlan (á vegum Skeifunnar), við
Skólavörðustíg. Táningahúsgögn, hönnuðir Dieter Roth og Magnús Pálsson.