Hönnunarsjóður Auroru
Um Hönnunarsjóðinn Auroru
Hönnunarsjóður Auroru hefur að markmiði að skjóta styrkum stoðum undir íslenska hönnun með því að veita hönnuðum og arkitektum fjárhagslega aðstoð. Markmið hans er að styrkja hönnuði til að koma sjálfum sér, hugmyndum sínum, vörum og verkefnum á framfæri og aðstoða við vöruþróun og markaðssetningu hérlendis og erlendis. Einnig getur sjóðurinn haft frumkvæði að sjálfstæðum verkefnum sem þjóna tilgangi hans svo sem að standa að viðurkenningum eða sýningum og vera samstarfsvettvangur hönnuða og aðila úr atvinnu- og viðskiptalífinu. Auk þessa miðlar sjóðurinn þekkingu á sviði hönnunar og arkitektúrs, í samstarfi við aðra aðila í faginu, eftir því sem við á. Hönnunarsjóði Auroru er þannig ætlað að styðja við bak efnilegra hönnuða, efla grasrótarstarf í hönnun og vera vettvangur hugmynda og skapandi hugsunar í greininni.
Hönnunarsjóðurinn var stofnaður 13. febrúar 2009, sem tilraunaverkefni til þriggja ára af
Auroru Velgerðarsjóði, sem veitti til hans 25 milljónum í þrjú ár, eða alls 75 milljónum. Í lok þessa tímabils var ákveðið að halda áfram með sjóðinn og veita aftur til hans 75 milljónum til þriggja ára, eða til loka ársins 2015.
Hönnunarsjóður Auroru á systursjóð á sviði tónlistar sem er
Kraumur tónlistarsjóður.
Sjóðirnir tveir deila húsnæði að Vonarstræti 4b en þar er Hönnunarmiðstöð Íslands einnig til húsa.